Miðvörðurinn yfirgefur KR

Axel Óskar Andrésson hefur yfirgefið KR.
Axel Óskar Andrésson hefur yfirgefið KR. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Axel Óskar Andrésson og KR hafa komist að samkomulagi um að leikmaðurinn yfirgefi félagið.

Þetta staðfestir Axel í samtali við Vísi í dag en Axel gekk í raðir KR í mars síðast liðnum, þegar hann sneri heim til Íslands úr atvinnumennsku, og skrifaði hann þá undir samning sem gilda átti til loka tímabilsins 2026.

Riftunarákvæði hafi verið í samningnum sem gerði Axeli kleift að yfirgefa KR nú þegar leiktíðinni er lokið.

Axel er nú þegar kominn með nokkur tilboð frá félögum hérlendis og þá hafi hann einnig fengið eitt tilboð erlendis frá.

Axel Óskar er uppalinn hjá Aftureldingu og má ætla að Mosfellingar séu æstir í að fá hann heim en liðið leikur í Bestu deild karla í fyrsta skipti í sögu félagsins á næsta ári.

Axel er 26 ára gamall og hafði hann leikið í tíu ár erlendis áður en hann kom til KR í mars. Þá á hann að baki tvo A-landsleiki og 46 leiki fyrir yngri landslið Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert