Geðveikt að sjá Messi detta út

Dagur Dan Þórhallsson á liðshóteli landsliðsins í Alicante í gær.
Dagur Dan Þórhallsson á liðshóteli landsliðsins í Alicante í gær. mbl.is/Jóhann Ingi

Landsliðsmaðurinn Dagur Dan Þórhallsson er kominn í undanúrslit Austurdeildar MLS-deildarinnar í fótbolta í Bandaríkjunum með liði sínu Orlando FC eftir sigur á Charlotte í oddaleik í átta liða úrslitum.  

Orlando mætir Atlanta í undanúrslitum en Atlanta kom öllum á óvart og sigraði Lionel Messi og félaga í Inter Miami í átta liða úrslitum.

„Það voru allir búnir að ákveða að Messi og félagar myndu vinna deildina, eða allir nema hin liðin í deildinni. Það var geðveikt að sjá þá detta út,“ viðurkenndi Dagur í samtali við mbl.is.

Dagur hefur tvívegis mætt Lionel Messi, sem leikur fyrir grannana í Inter Miami. Messi er að hans mati besti leikmaður allra tíma og fór sá argentínski illa með Dag og félaga.

„Ég er búinn að spila við hann tvisvar. Hann skoraði tvö mörk í fyrri leiknum sem við töpuðum 3:1 og aftur í seinni leiknum sem við töpuðum 5:0. Það er fáránlegt hvað hann er góður.

Ég hef fylgst með honum frá því ég var ungur og ég skoða klippur af honum fyrir nánast hvern einasta leik og svo allt í einu var ég að spila á móti honum. Það var ótrúlega gaman. Mér finnst hann langbesti leikmaður allra tíma. Félagi minn fékk treyjuna hans en við þökkuðum hvor öðrum fyrir leikinn,“ sagði Dagur.

Nánar er rætt við Dag í Morgunblaðinu sem kom út í morgun. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert