Aron Einar Gunnarsson, landsliðsfyrirliði í fótbolta, snýr aftur til Cardiff í Wales eftir helgi þar sem Ísland og Wales mætast í Þjóðadeild karla í fótbolta á þriðjudag.
Aron lék í átta ár með Cardiff og lék m.a. í ensku úrvalsdeildinni með liðinu, þótt hann hafi verið í B-deildinni stærstan hluta tíma síns hjá velska félaginu.
„Ég hlakka til. Bestu árin mín voru þar og ég var þar í átta ár. Cardiff er sérstakur staður fyrir mig og mína fjölskyldu. Ég er spenntur að mæta Wales á útivelli,“ sagði Aron á blaðamannafundi íslenska landsliðsins í dag.
Ísland mætir Svartfjallalandi ytra á morgun og flýgur yfir til Cardiff á sunnudag.