„Það er svo langt í EM!“

Dagný Brynjarsdóttir og Þorsteinn Halldórsson.
Dagný Brynjarsdóttir og Þorsteinn Halldórsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Dagný er alveg í myndinni og er að komast í sitt fyrra form,“ sagði Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, um miðjumanninn reynda Dagnýju Brynjarsdóttur.

Hún er ekki í leikmannahópnum að þessu sinni en Dagný er tiltölulega nýfarin aftur af stað eftir að hafa eignast sitt annað barn fyrr á árinu.

„Hún nálgast þetta hægt og rólega held ég. Hún er ekki valin núna. Ég er búinn að vera mjög ánægður með miðjumennina núna undanfarið og ég ákvað að breyta þeim ekki.

Ég held við mig við þessa fjóra miðjumenn sem hafa verið mest inni á miðsvæðinu hjá mér í síðustu 6-8 leikjum. Ég ætla að halda mig við þær. Svo er það bara Dagnýjar mál að standa sig vel áfram og þrýsta á mig til að vera valin.

Ég hef heyrt í henni nokkrum sinnum eftir að hún byrjaði að spila aftur. Við eigum alltaf í góðum samskiptum í kringum þetta allt saman,“ sagði Þorsteinn á fréttamannafundi í höfuðstöðvum KSÍ í Laugardal í dag.

Spurður hvort hún ætti möguleika á að vera í lokahópnum fyrir EM 2025 í Sviss næsta sumar sagði Þorsteinn:

„Það er svo langt í EM! Jú, jú, ef að henni gengur vel. Ég er ekki að loka neinum dyrum á Dagnýju. Ef hún stendur sig vel gerir hún alltaf tilkall til að vera í þessum hópi, það er alveg ljóst. Það er bara eitthvað sem framtíðin leiðir í ljós.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert