Viljum að Sveindís spili meira

Þorsteinn Halldórsson og Sveindís Jane Jónsdóttir.
Þorsteinn Halldórsson og Sveindís Jane Jónsdóttir. Ljósmynd/Samsett

„Auðvitað hentar okkur betur að hún spili meira en það er svo sem lítið sem við getum gert í því,“ sagði Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, um stöðu Sveindísar Jane Jónsdóttur hjá þýska stórliðinu Wolfsburg.

Sveindís Jane hefur ekki mikið verið í byrjunarliðinu hjá Wolfsburg það sem af er tímabili og viðurkenndi Þorsteinn á fréttamannafundi í höfuðstöðvum KSÍ í Laugardal í dag að staðan væri ekki ákjósanleg.

„Það er eitthvað sem þeir ráða. Hún getur allavega spilað með okkur, sem er eitthvað. Hún er heil og getur spilað með okkur, sem er frábært.

En auðvitað myndi maður vilja að hún væri að spila töluvert meira með Wolfsburg. Það hjálpar okkur þegar leikmenn eru að spila reglulega hjá sterkum liðum.

Ég held að þetta sé bara eitthvað tímabundið og ég hef enga trú á öðru en að það breytist fljótlega,“ sagði landsliðsþjálfarinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka