Átti erfiða tíma í Danmörku og Hollandi

Andri Fannar Baldursson í leik með U21 árs landsliðinu.
Andri Fannar Baldursson í leik með U21 árs landsliðinu. Eyþór Árnason

Landsliðshópur Íslands í fótbolta hefur tekið nokkrum breytingum fyrir leikina gegn Svartfjallalandi og Wales í Þjóðadeildinni. Dagur Dan Þórhallsson, Rúnar Þór Sigurgeirsson og Andri Fannar Baldursson hafa allir komið inn í hópinn að undanförnu vegna meiðsla annarra leikmanna.

„Við þekkjum þessa leikmenn mjög vel. Þeir hafa verið í hópunum hjá okkur áður. Dagur Dan hefur spilað á fullu með Orlando og það hefur gengið mjög vel. Hann hefur verið að bæta sig mikið.

Eftir að Hlynur Freyr datt út komu Rúnar og Andri Fannar inn í hópinn. Andri Fannar hefur verið í þessum hóp áður og spilað vel með U21 árs landsliðinu. Rúnar hefur spilað vel fyrir Willem II og það verður gaman að sjá hann,“ sagði Davíð Snorri Jónasson í samtali við mbl.is.

Andri Fannar Baldursson lék sína fyrstu landsleiki ungur að árum en hefur síðustu ár fyrst og fremst spilað fyrir U21 árs landsliðið. Hann fær nú aftur tækifæri með A-landsliðinu.

„Fótboltinn er eins og hann er. Andri hefur unnið vel úr sínu. Hann átti erfiða tíma í Danmörku og Hollandi en hann skilar alltaf sínu. Hann var lykilmaður hjá Elfsborg sem varð næstum því sænskur meistari. Andri er bara 22 ára og hann verður að halda þessu áfram,“ sagði Davíð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka