Geðveikt að skora eitt og hálft mark

Logi Tómasson fagnar gegn Wales.
Logi Tómasson fagnar gegn Wales. mbl.is/Eyþór

Logi Tómasson skoraði sitt fyrsta landsliðsmark er hann minnkaði muninn í 2:1 gegn Wales á Laugardalsvelli í Þjóðadeildinni í síðasta mánuði. Logi lék seinni hálfleikinn og nýtti tækifærið afar vel.

„Ég var mjög sáttur og það var gaman að skora fyrsta markið. Ég get ekki sagt að ég hafi átt von á þessu, sérstaklega því ég byrjaði á bekknum. Þegar ég fékk að koma inn á var markmiðið að gera vel og það gekk framar vonum,“ sagði Logi við mbl.is.

Logi átti mjög stóran þátt í öðru marki Íslands í leiknum sömuleiðis, en lokatölur urðu 2:2. Markið skráist sem sjálfsmark á Danny Ward í marki Wales eftir glæsilegan sprett frá Loga.

„Ég skoraði eitt og hálft mark og það var geðveikt. Maður finnur það þegar maður tekur skotin að boltinn er á leiðinni inn. Ég fann það í fyrri markinu.“

Ísland tapaði í kjölfarið fyrir Tyrklandi á heimavelli, 4:2. Logi var í byrjunarliðinu í þeim leik, en hann reyndist erfiðari fyrir Loga og allt liðið.

„Mér fannst hann góður í 60 mínútur eða svo. Svo fer þetta í einhvern ping-pong bolta sem við viljum ekki spila. Þetta var fram og til baka. Við hefðum líka getað fengið víti. Þetta var skrítinn leikur miðað við aðra landsleiki,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka