„Þetta lið virðist vera svipað að styrkleika og Omonoia frá Kýpur,“ sagði Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings úr Reykjavík, í samtali við mbl.is um armenska liðið Noah en liðin mætast í Sambandsdeildinni klukkan 17.45 á morgun.
„Það yrðu samt fleiri úr Omonoia í úrvalsliði þessara liða. Það eru Brasilíumenn og Portúgalar í þessu liði. Þeir eru teknískir og góðir í fótbolta,“ bætti Arnar við. Noah fékk risaskell, 8:0, gegn enska liðinu Chelsea í sömu keppni.
„Þeir hafa náð í góð úrslit og m.a. á móti AEK í Aþenu. Svo kom þessi leikur á móti Chelsea og þeir fóru fram úr sér í þeim leik. Þeir vildu spila sinn eigin leik og fóru í pressu út um allan völl. Það endaði í einhverri þvælu og Chelsea gekk frá þeim. Við förum í þetta verkefni með svipað hugarfar og við gerðum þegar við fórum til Kýpur,“ sagði Arnar en Víkingur fékk skell gegn Omonoia, 4:0, á útivelli.
„Ef við tökum stig með okkur heim væri það frábært og ef þau verða þrjú er það himneskt. Við byrjum á að verja stigið og sleppa því að gera mistök. Þessir útileikir eru mjög erfiðir, þótt við höfum heilt yfir verið flottir í útileikjunum síðustu ár. Ég er bjartsýnn og stig fer langt með að tryggja okkur sæti í umspilinu í febrúar. Við verðum að vera þéttir til baka og hingað til hefur gengið vel að skora. Þetta verður allt öðruvísi leikur en heimaleikirnir,“ sagði Arnar.