Gamla ljósmyndin: Markverðir anda léttar

Íþrótta­deild Morg­un­blaðsins og mbl.is held­ur áfram að gramsa í mynda­safni Morg­un­blaðsins og birta á mbl.is á laug­ar­dög­um. 

Markv­arðahrell­ir­inn frá Grinda­vík Al­freð Finn­boga­son til­kynnti á dög­un­um að knatt­spyrnu­ferl­in­um væri lokið en Al­freð lék síðast með Eupen í Belg­íu. 

Um fimmtán ár eru liðin frá því Al­freð kom fram á sjón­ar­sviðið í meist­ara­flokki en hann var í leik­manna­hópi Breiðabliks sem varð bikar­meist­ari árið 2009. Sum­arið eft­ir varð Breiðablik Íslands­meist­ari í fyrsta skipti í karla­flokki í íþrótt­inni og var Al­freð þá í lyk­il­hlut­verki. 

Meðfylgj­andi mynd tók Eggert Jó­hann­es­son í toppslag Breiðabliks og ÍBV á Kópa­vogs­vell­in­um í ág­úst 2010. Al­freð tryggði þá Blik­um mik­il­vægt stig er hann jafnaði 1:1 fyr­ir fram­an rúm­lega 3 þúsund áhorf­end­ur. ÍBV barðist um titil­inn við Breiðablik á þessu Íslands­móti og var ÍBV und­ir stjórn Heim­is Hall­gríms­son­ar sem síðar stýrði Al­freð í landsliðinu. 

„Eyja­mönn­um tókst þó ekki að verj­ast Al­freð Finn­boga­syni enda stand­ast fáir hon­um snún­ing í sum­ar. Al­freð er þyngd­ar sinn­ar virði í gulli fyr­ir Blika og það sannaðist í gær­kvöldi,“ skrifaði Kristján Jóns­son í um­fjöll­un um leik­inn í Morg­un­blaðinu 17. ág­úst. 

Á mynd Eggerts er Al­freð kom­inn í færi hægra meg­in í víta­teign­um í upp­bót­ar­tíma. Matt Garner sæk­ir að hon­um og markvörður­inn Al­bert Sæv­ars­son kem­ur út á móti. Al­freð lyfti bolt­an­um yfir Al­bert en Andri Ólafs­son fyr­irliði ÍBV bjargaði á marklínu. 

Al­freð er 35 ára gam­all og lék sem at­vinnumaður frá ár­inu 2010, með Lok­eren og Eupen í Belg­íu, Hels­ing­borg í Svíþjóð, He­eren­veen í Hollandi, Real Sociedad á Spáni, Olymp­iacos í Grikklandi og Lyng­by í Dan­mörku en hann lék lengst með Augs­burg í Þýskalandi, í sjö ár. Al­freð skoraði mark fyr­ir lið frá átta lönd­um í deild­ar-eða bikarleikj­um sem er merki­leg staðreynd. 

Al­freð varð sum­arið 2018 fyrst­ur ís­lenskra knatt­spyrnu­manna til að skora í loka­keppni HM þegar hann skoraði í jafn­tefl­is­leikn­um fræga gegn Arg­entínu í Moskvu. 

Hér þarf á stikla á stóru á ferli Al­freðs en sem dæmi má nefna að eng­inn Íslend­ing­ur hef­ur skorað jafn marg­ar þrenn­ur í fimm sterk­ustu deild­um Evr­ópu en Al­freð skoraði þríveg­is þrennu fyr­ir Augs­burg og gerði það raun­ar á aðeins tólf mánuðum. 

Al­freð lék 73 A-lands­leiki og skoraði í þeim 18 mörk. Hann lék einnig í loka­keppni EM 2016. 

Al­freð hafnaði í 5. sæti í kjöri Sam­taka íþróttaf­rétta­manna á íþrótta­manni árs­ins árið 2018 og í 7. sæti 2012 og 2013. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert