„Við erum náttúrulega með tvo alveg ævintýralega spennandi og góða kosti,“ sagði Hannes Þór Halldórsson, fyrrverandi landsliðsmarkvörður Íslands í fótbolta í Dagmálum.
Hannes Þór, sem er fertugur, lagði skóna á hilluna haustið 2021 eftir afar farsælan feril þar sem hann var í lykilhlutverki hjá íslenska landsliðinu og fór á tvö stórmót með liðinu.
Hannes lék alls 77 A-landsleiki fyrir Ísland en stjórn KSÍ er í leit að nýjum þjálfara eftir að Norðmaðurinn Åge Hareide lét af störfum sem þjálfari liðsins.
„Ég veit ekkert hvort þeir séu á lausu en Arnar Gunnlaugsson og Freyr Alexendersson eru báðir, hvor á sinn hátt, mjög álitlegir kostir,“ sagði Hannes.
„Þeir eru mjög ólíkir líka. Arnar hefur ekki þjálfað erlendis en hefur náð sögulegum árangri hérna heima. Hann er líka einn af okkar bestu knattspyrnumönnum fyrr og síðar og lék meðal annars í ensku úrvalsdeildinni þannig að hann er með mjög áhugaverða ferilskrá.
Svo erum við með Freysa sem þekkir þetta landsliðsumhverfi út og inn. Hann hefur náð ótrúlegum árangri sem þjálfari í atvinnumennsku og nær mjög vel til leikmanna. Á sama tíma gat hann ekkert í fótbolta,“ bætti Hannes svo við í léttum tón en Hannes og Freyr léku saman með Leikni í Reykjavík á sínum yngri árum.