Breyttir tímar þegar miðvarðastöður eru vandamál

Sverrir Ingi Ingason og Daníel Leó Grétarsson léku flesta leiki …
Sverrir Ingi Ingason og Daníel Leó Grétarsson léku flesta leiki í miðverði hjá íslenska landsliðinu á árinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Segja má að það sé tákn um breytta tíma að miðvarðastöðurnar tvær skuli þykja einna helsta vandamálið í karlalandsliði Íslands í dag.

Í gullaldarliði síðasta áratugar, þegar Ísland komst bæði á EM 2016 og HM 2018, voru það Kári Árnason og Ragnar Sigurðsson sem stóðu vaktina í hjarta varnarinnar í langflestum mótsleikjum liðsins. Þeir mynduðu magnað miðvarðapar, voru ekki endilega sem einstaklingar bestu miðverðirnir sem hafa leikið fyrir Íslands hönd en samvinna þeirra og tenging við liðið í heild var einstök.

Í kringum aldamótin mynduðu Eyjólfur Sverrisson og Hermann Hreiðarsson um tíma magnað miðvarðapar, enda lykilmenn í sínum liðum í efstu deildum Þýskalands og Englands. Guðni Bergsson var lengi í lykilhlutverki í íslensku vörninni og var á sínum yngri árum með Atla Eðvaldssyni og Sævari Jónssyni í firnasterkri miðvarðaþrennu í þriggja manna vörn landsliðsins. Þar á undan má nefna til sögunnar leiðtoga eins og Martein Geirsson og Guðna Kjartansson.

Nú er spurningin hvaða miðvarðapar nær næst að koma sér í sögubækurnar. Á árinu 2024 voru Sverrir Ingi Ingason og Daníel Leó Grétarsson langoftast í stöðunni, áttu góða leiki inn á milli en ansi oft brást varnarleikurinn, ekki bara hjá þeim heldur hjá liðinu í heild.

En skoðum hverjir spiluðu sem miðverðir í ár og hverjir geta helst slegist við þá um stöðurnar tvær um þessar mundir.

Sverrir Ingi Ingason lék sem miðvörður í níu af tólf landsleikjum ársins 2024, alltaf í byrjunarliðinu, og var fyrirliði í tveimur þeirra en missti af tveimur leikjum í Þjóðadeildinni vegna meiðsla.

Sverrir er 31 árs gamall og hefur spilað 55 landsleiki en hann var í íslenska hópnum bæði á EM 2016 og HM 2018 og hann kom við sögu í tveimur leikjum á hvoru móti. Sverrir leikur í vetur með Panathinaikos í Grikklandi, hefur spilað síðustu 11 deildarleiki í byrjunarliði eftir að hafa misst af fyrstu þremur vegna meiðsla. Þá hefur Sverrir spilað níu Evrópuleiki á tímabilinu, átta þeirra í byrjunarliði. Hann var danskur meistari með Midtjylland síðasta vor.

Umfjöllunina má lesa í heild sinni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert