„Forráðamenn KSÍ vita að tíminn er knappur“

Þorvaldur Örlygsson, formaður KSÍ, vinnur nú hörðum höndum að því …
Þorvaldur Örlygsson, formaður KSÍ, vinnur nú hörðum höndum að því að ráða nýjan landsliðsþjálfara. mbl.is//Óttar Geirsson

Forráðamenn Knattspyrnusambands Íslands leita nú að nýjum landsliðsþjálfara fyrir karlalandsliðið.

Norðmaðurinn Åge Hareide lét af störfum sem þjálfari íslenska liðsins í lok síðasta mánaðar eftir rúmlega eitt og hálft ár í starfi.

Framundan eru mikilvægir leikir hjá íslenska liðinu, umspil í Þjóðadeildinni þar sem Ísland mætir Kósovó um sæti í B-deild í mars og loks undankeppni HM 2026 sem verður leikin í september, október og nóvember á næsta ári.

Treystir KSÍ fullkomlega

„Ég treysti KSÍ fullkomlega í þessu ferli,“ sagði Jóhann Berg Guðmundsson, fyrirliði liðsins, í samtali við mbl.is.

„Ég hef enga trú á öðru en að besti kandídatinn verði valinn. Það eru mikilvægir leikir framundan á næsta ári, umspilið og svo undankeppni HM. Það verða nokkir vináttulandsleikir þarna í millitíðinni þannig að nýr þjálfari fær ekki mikinn tíma til þess að móta liðið.

Forráðamenn KSÍ vita að tíminn er knappur og að það þarf að klára þetta bráðlega. Sú vinna er í gangi og þetta verður vonandi klárað fljótlega,“ bætti landsliðsfyrirliðinn við í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert