Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings úr Reykjavík, hefur ekki heyrt í forráðamönnum Knattspyrnusambands Íslands vegna landsliðsþjálfarastöðunnar sem nú er á lausu.
Arnar hefur verið sterklega orðaður við þjálfarastöðuna hjá íslenska karlalandsliðinu eftir að Norðmaðurinn Åge Hareide lét af störfum sem þjálfari liðsins í lok nóvembermánaðar.
Arnar hefur náð frábærum árangri með Víkinga á undanförnum árum en liðið tryggði sér sæti í umspili Sambandsdeildarinnar á fimmtudaginn síðasta með janftefli gegn LASK í Linz, 1:1.
„Ég hef ekkert heyrt í forráðamönnum KSÍ,“ sagði Arnar í samtali við mbl.is.
„Ég les bara það sem stendur í blöðunum. Ef þeir hafa samband við Víkinga og fá leyfi til þess að ræða við mig þá hef ég áhuga á því,“ bætti Arnar við í samtali við mbl.is.