Eftir úrslit gærdagsins þegar Víkingar tryggðu sér sæti í umspili Sambandsdeildar karla í fótbolta er ljóst að heildargreiðslur sem þeir fá fyrir þátttöku sína í keppninni eru komnar yfir 800 milljónir króna.
Hin þrjú íslensku félögin sem léku í Evrópumótunum í ár fá um 100 milljónir króna hvert í sinn hlut.
Á vefsíðu þar sem allar greiðslur UEFA vegna allra Evrópumótanna eru skilgreindar má sjá hvað íslensku félögin hafa unnið sér inn í tekjur með þátttöku sinni á þessu tímabili.
Breiðablik, Stjarnan og Valur komust öll í gegnum fyrstu umferð í undankeppni Sambandsdeildarinnar en féllu út í annarri umferð.
Fyrir það fá öll liðin sömu greiðslu frá UEFA, sem er 700 þúsund evrur, eða ríflega 101 milljón íslenskra króna.
Víkingar töpuðu í fyrstu umferð undankeppni Meistaradeildarinnar en færðust þá yfir í undankeppni Sambandsdeildarinnar og komust þar í gegnum þrjár umferðir og þar með í deildarkeppnina, sem lauk með jafnteflisleiknum gegn LASK í Austurríki í gær.
Víkingar eru hins vegar komnir með samtals rúmlega 5,4 milljón evrur í sinn hlut eftir að hafa náð 19. sæti deildarkeppninnar, en það samsvarar um 787 milljónum íslenskra króna.
Þeir munu síðan fara vel yfir 800 milljónir, bara með því að taka þátt í umspilinu í febrúar þar sem þeir mæta Panathinaikos frá Grikklandi 13. og 20. febrúar. Samkvæmt vefsíðunni fá þeir 200 þúsund evrur í viðbót fyrir að hafa komist í umspilið en það samsvarar um 29 milljónum króna. Þar með verða Víkingar komnir með um 816 milljónir í sinn hlut.
Heildargreiðslur til íslensku félaganna fjögurra munu því nema að minnsta kosti 1.119 milljónum króna.
Rétt er að taka fram að hluti af þessum greiðslum fer í ferðakostnað og Víkingar eru t.d. búnir að spila sjö útileiki á tímabilinu þar sem þeir hafa farið til Írlands, Albaníu, Eistlands, Andorra, Kýpur, Armeníu og Austurríkis.
Kostnaðurinn af ferðalögunum nemur því einhverjum tugum milljóna en ljóst að hagnaður félagsins er umtalsverður og á mælikvarða sem íslensk félög hafa ekki áður kynnst.