Heimir: Ólíklegt að árin verði fleiri hjá KSÍ

Heimir Hallgrímsson stýrir æfingu hjá íslenska landsliðinu á HM í …
Heimir Hallgrímsson stýrir æfingu hjá íslenska landsliðinu á HM í Rússlandi árið 2018. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Knattspyrnuþjálfarinn Heimir Hallgrímsson hefur átt afar viðburðarríkt ár en hann var ráðinn þjálfari karlaliðs Írlands í júlí á þessu ári, aðeins nokkrum dögum eftir að hann lét af störfum sem þjálfari karlaliðs Jamaíka.

Heimir, sem er 57 ára gamall, tók við þjálfun Jamaíka í september árið 2022 og náði mjög góðum árangri með liðið en Jamaíka komst í undanúrslit Gullbikarsins þar sem liðið tapaði fyrir Mexíkó í undanúrslitum keppninnar í Nevada í Bandaríkjunum.

Þá fór liðið alla leið í undanúrslit Þjóðadeildar Norður-Ameríku í ár þar sem Jamaíka tapaði fyrir Bandaríkjunum í Arlington, 3:1, eftir framlengdan leik en Jamaíka hafnaði í þriðja sæti keppninnar eftir sigur gegn Panama í leik um bronsverðlaunin, 1:0. Með árangrinum í Þjóðadeildinni tryggði liðið sér einnig keppnisrétt í Suður-Ameríkubikarnum þar sem Jamaíka féll úr leik eftir riðlakeppnina og hætti Heimir með liðið stuttu síðar.

„Mér líður vel í þessu starfi hjá Írlandi,“ sagði Heimir í samtali við Morgunblaðið.

Spennandi tímar framundan

Knattspyrnusamband Íslands er í leit að nýjum landsliðsþjálfara fyrir íslenska karlalandsliðið en Heimir þekkir vel til í Laugardalnum eftir að hafa stýrt liðinu frá árinu 2013 til ársins 2018 og komið því á tvö stórmót, EM í Frakklandi árið 2016 og HM í Rússlandi árið 2018. Þá var hann aðstoðarþjálfari karlalandsliðsins frá 2011 til 2013.

„Mér finnst góður gangur í þessu hjá íslenska liðinu og það er mjög skemmtilegt að horfa á liðið spila í dag. Þetta eru mjög flottir strákar sem spila góðan sóknarbolta. Við höfum verið betri fram á við en varnarlega.  Åge Hareide var að mínu mati á góðri leið með liðið og ég er svekktur yfir því að hann hafi hætt. Þau nöfn sem hafa verið nefnd til sögunnar sem mögulegir arftakar hans eru öll mjög góð. Landsliðsþjálfarastarfið hjá karlalandsliðinu er á allt öðrum stað í dag en þegar við Lars komum inn í það hjá KSÍ á sínum tíma. Það þótti ekki beint framfaraskref að taka við landsliðinu og þetta var oft endastöð hjá mörgum þjálfurum sem áttu einfaldlega erfitt með það að fá annað starf eftir að hafa stýrt landsliðinu.

Í dag er eftirsóknarvert að taka við íslenska landsliðinu og margir góðir og reyndir þjálfarar hafa áhuga á því enda mjög spennandi tímar framundan hjá þessu liði. Það er frábært fyrir Ísland ef þau nöfn sem hafa oftast verið nefnd til sögunnar hafa áhuga á því að stýra liðinu. Ég var hjá KSÍ í rúmlega sjö ár og það var góður tími fyrir mig persónulega og landsliðið líka. Ég starfaði þar með frábæru starfsfólki KSÍ og það gleymist oft hversu gott starf er unnið á skrifstofu KSÍ. Eins og ég sagði áðan þá voru þetta sjö góð ár og mér finnst ólíklegt að þau verði fleiri hjá KSÍ.“

Ítarlegt viðtal við Heimi Hallgrímsson má sjá á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert