Heimir Hallgríms: „Ég útiloka aldrei neitt“

Heimir Hallgrímsson.
Heimir Hallgrímsson. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Knattspyrnuþjálfarinn Heimir Hallgrímsson greindi frá því í samtali við Morgunblaðið á dögunum að hann teldi ólíklegt að hann myndi þjálfa landslið Íslands í framtíðinni.

Heimir, sem er þjálfari karlaliðs Írlands í dag, þekk­ir vel til í Laug­ar­daln­um eft­ir að hafa stýrt íslenska karlalandsliðinu frá ár­inu 2013 til árs­ins 2018 og komið því á tvö stór­mót, EM í Frakklandi árið 2016 og HM í Rússlandi árið 2018.

Þá var hann aðstoðarþjálf­ari karla­landsliðsins frá 2011 til 2013 en hann hefur einnig stýrt kvenna- og karlaliði ÍBV á ferlinum, Al Arabi í Katar og karlaliði Jamaíka.

Eins og ég sagði áðan þá voru þetta sjö góð ár og mér finnst ólík­legt að þau verði fleiri hjá KSÍ,“ sagði Heimir meðal annars í samtali við Morgunblaðið.

Margir góðir kostir í boði

Er þá útilokað að Heimir stýri landsliði Íslands aftur í framtíðinni?

„Það sagði mér einu sinni einn eldri Svíi að maður ætti aldrei að loka neinum dyrum og ég útiloka aldrei neitt,“ sagði Heimir.

„Þetta er allavega ekki tímapunkturinn fyrir mig til þess að taka við landsliðinu. Það eru góð nöfn í umræðunni um landsliðsþjálfarastöðuna og ég er sannfærður um að næsti landsliðsþjálfari mun verða sigursæll.

Landsliðið þarf fyrst og fremst að finna einhverja lausn í sínum varnarleik og þá getur Ísland gert magnaða hluti á næstu árum, um það er ég algjörlega sannfærður,“ bætti Heimir við í samtali við Morgunblaðið.

Ítarlegt viðtal við Heimi Hallgrímsson má nálgast með því að smella hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka