Glódís Perla: „Ég tók þetta inn á mig“

Glódís Perla Viggósdóttir og Halla Tómasdóttir á Bessastöðum á nýársdag.
Glódís Perla Viggósdóttir og Halla Tómasdóttir á Bessastöðum á nýársdag. Ljósmynd/Eyþór Árnason

Landsliðsfyrirliðinn og knattspyrnukonan Glódís Perla Viggósdóttir átti frábært ár en hún varð Þýskalandsmeistari síðasta vor með félagsliði sínu Bayern München, þar sem hún er einnig fyrirliði.

Til að toppa árið 2024 var Glódís sæmd heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu við hátíðarlega athöfn á Bessastöðum á nýársdag.

„Þetta er gríðarlega mikill heiður og kom mér mikið á óvart ef ég á að vera alveg hreinskilin. Ég hafði í raun aldrei pælt eitthvað sérstaklega í því að þetta gæti verið möguleiki. Ég er þakklát og dagurinn í gær [fyrradag] var mjög fallegur í alla staði. Nú er bara að halda áfram á sömu braut til þess að standa undir orðunni,“ sagði Glódís í léttum tón í samtali við Morgunblaðið.

Tók gengið inn á sig

Norðmaðurinn Alexander Straus tók við þjálfun Bayern München árið 2022 og gerði Glódísi að fyrirliða liðsins fyrir keppnistímabilið 2023-24.

„Markmiðið hjá mér var að þetta myndi ekki breyta neinu persónulega og að ég myndi bara halda áfram að spila minn leik en svo breytast hlutirnir ósjálfrátt einhvern veginn. Það fylgir þessu bæði meiri ábyrgð og pressa og þó að við höfum verið frábærar eftir áramót þá gekk okkur til að mynda ekki vel í Meistaradeildinni fyrir áramót. Það var virkilega krefjandi tími að takast á við það í fyrsta skipti.

Við náðum ekki markmiðum okkar í Meistaradeildinni og féllum úr leik í riðlakeppninni. Mér fannst ég vera sú sem bar mesta ábyrgð á frammistöðunni og ég tók þetta inn á mig. Þetta hafði klárlega áhrif á mig en fyrir fram hélt ég að þetta myndi kannski ekki hafa bein áhrif á mig. Þetta var líka mjög lærdómsríkur tími og að vera fyrirliði er mjög skemmtilegt hlutverk. Það er skemmtilegast þegar vel gengur en getur verið erfitt líka þegar það gengur illa.“

Viðtalið við Glódísi Perlu má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert