Gísli með langan samning í Póllandi

Gísli Gottskálk Þórðarson í leik Víkings og Borac Banja Luka …
Gísli Gottskálk Þórðarson í leik Víkings og Borac Banja Luka í Sambandsdeildinni í vetur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Knattspyrnumaðurinn Gísli Gottskálk Þórðarson skrifar undir fjögurra og hálfs árs samning við pólska toppliðið Lech Poznan.

Víkingar staðfestu á samfélagsmiðlum sínum fyrir stundu að þeir hefðu samþykkt kauptilboð Lech Poznan í Gísla og hann myndi undirrita samninginn við félagið að lokinni læknisskoðun.

Gísli er tvítugur miðjumaður sem kom til Víkings árið 2022 frá Bologna á Ítalíu, 17 ára gamall, en hann lék áður með Breiðabliki í yngri flokkunum.

Hann festi sig rækilega í sessi í Víkingsliðinu á síðasta tímabili þar sem hann lék 24 af 27 leikjum liðsins í Bestu deildinni, alla fimm leikina í bikarnum og síðan alla fjórtán leiki Víkings í Evrópukeppni.

Þá kom Gísli inn í 21-árs landsliðið þar sem hann hefur spilað sex leiki.

Þar með spila tveir Íslendingar í pólsku úrvalsdeildinni en Davíð Kristján Ólafsson leikur með Cracovia sem er í fimmta sæti, sjö stigum á eftir Lech Poznan.

Lech Poznan hefur lengi verið í fremstu röð í pólskum fótbolta. Félagið hefur átta sinnum orðið pólskur meistari, síðast árið 2022, og bikarmeistari fimm sinnum, síðast árið 2009.

Liðið komst í átta liða úrslit Sambandsdeildarinnar tímabilið 2022-23 og sló þá einmitt Víkinga út eftir framlengingu í seinni viðureign liðanna í Póllandi, þar sem Gísli Gottskálk sat á  varamannabekk Víkingsliðsins.

Keppni í pólsku úrvalsdeildinni hefst á ný eftir vetrarfríið þann 31. janúar en Lech á þá heimaleik gegn Widzew Lódz. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert