Fyrrum íslenski landsliðsmaðurinn Diego Jóhannesson hefur lagt skóna á hilluna aðeins 31 árs gamall.
Diego er fæddur og uppalinn á Spáni en hann er með íslenskt vegabréf í gegnum föður sinn.
Diego rataði í fréttirnar á Íslandi árið 2014 þegar hann var á mála hjá Real Oviedo en hann mætti Alfreð Finnbogasyni og félögum í Real Sociedad í spænska Konungsbikarnum.
Í kjölfarið fór Diego í viðtal og sagði að draumur hans væri að spila fyrir íslenska landsliðið.
Í janúar 2016 var Diego valinn í fyrsta skiptið í íslenska landsliðshópinn. Hann á þrjá A-landsleiki með Íslandi en sá síðasti kom árið 2017.
Árið 2022 meiddist Diego á hné en hann hefur ekki náð sér eftir meiðslin þrátt fyrir nokkrar aðgerðir.
Diego á að baki 172 leiki á ferlinum en hann spilaði með Real Oviedo frá 2014 til 2021 en hann hefur verið á mála hjá Albacete síðan 2021.