„Ég mun kanna hug þessara stráka, það er klárt mál,“ sagði Arnar Gunnlaugsson, nýráðinn þjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu, í samtali við mbl.is í höfuðstöðvum KSÍ í Laugardal í vikunni.
Arnar, sem er 51 árs gamall, skrifaði undir þriggja ára samning við Knattspyrnusambandið en hann hafði áður stýrt karlaliði Víkings úr Reykjavík frá árinu 2018.
Margir af þeim leikmönnum Íslands sem fóru með liðinu á tvö stórmót, EM í Frakklandi árið 2016 og HM í Rússlandi árið 2018, eru komnir vel yfir þrítugt og hefur ákveðin óvissa ríkt um framtíð þeirra í landsliðinu.
Gylfi Þór Sigurðsson er einn þeirra sem gaf það út eftir síðasta landsliðsverkefnið að hann væri að íhuga það að leggja landsliðsskóna á hilluna.
„Ég mun heyra í Gylfa Þór, Aroni Einari, Birki Bjarnasyni, Jóhanni Berg og fleirum. Ég þarf að átta mig á því hversu hungraðir þeir eru. Ef ég fæ það á tilfinninguna að menn séu meira í þessu til þess að komast í einhverjar sögubækur, varðandi fjölda landsleikja sem dæmi, þá ætla ég að vera heiðarlegur og segja takk fyrir mig og bless.
En ef ég skynja alvöru hungur, sem ég efast ekki um að sé til staðar, þá snýst þetta fyrst og fremst um leikform. Þú mætir ekki í landsleiki ef þú ert ekki búinn að vera spila með þínu félagsliði í nokkra mánuði, það bara gengur ekki upp. Ef allir þessir þættir eru til staðar, og menn eru í formi, þá eiga allir möguleika á því að spila,“ sagði Arnar.
Arnar segir að eldri leikmenn liðsins afar mikilvæga fyrir þá yngri sem eru margir hverjir að stíga sín fyrstu skref í landsliðsumhverfinu.
„Eldri leikmenn þurfa að átta sig á því að þeir eru orðnir eldri og þeir þurfa að vera ákveðið stuðningsnet fyrir yngri leikmennina. Þó að þeir séu ekki í byrjunarliðinu þá mega þeir ekki fara bara í fýlu heldur þurfa þeir að vera leiðtogar. Það er þeirra að afhenda keflið til næstu kynslóðar en samt að vera til taks og tilbúnir að spila,“ bætti Arnar við í samtali við mbl.is.