Átak í þjálfun varnarmanna

Jörundur Áki Sveinsson er yfirmaður knattspyrnumála hjá KSÍ
Jörundur Áki Sveinsson er yfirmaður knattspyrnumála hjá KSÍ Eggert Jóhannesson

Oftar en ekki þegar íslenska karlalandsliðið í fótbolta er gagnrýnt þá er talað um skort á frambærilegum varnarmönnum og ef gögnin eru skoðuð þá er mikið til í því að landsliðinu okkar skorti sterka varnarmenn.

Þegar landsliðið var upp á sitt besta hér um árið voru Ragnar Sigurðsson og Kári Árnason helstu máttarstólpar landsliðsins í vörninni. Nú eru þeir báðir hættir og Sverrir Ingi Ingason hefur tekið við keflinu og hefur hann haft Daníel Leó Grétarson sér við hlið í undanförnum leikjum.

Jörundur Áki Sveinsson, yfirmaður fótboltamála hjá KSÍ, sagði frá því í útvarpsþættinum Fótbolti.net að sambandið hafi ákveðið að bregðast við þessu vandamáli.

„Það hefur verið kallað eftir því að við þurfum fleiri varnarmenn og laga þurfi varnarleik landsliðsins,“ segir Jörundur.

„Við erum að fara af stað með tilraunaverkefni núna í lok mánaðarins varðandi yngri leikmenn. Við ætlum að vera með æfingar þar sem við köllum saman eingöngu varnarmenn yngri landsliða. Inni á þeim æfingum verða kempur eins og Hermann Hreiðarsson, Ívar Ingimarsson og mögulega fleiri sem aðstoða landsliðsþjálfarana okkar.“

„Ætlunin er að kenna undirstöðuatriði í varnarleik, staðsetningar og svo framvegis. Þetta er tilraunaverkefni sem við ætlum að fara af stað með. Vonandi kemur eitthvað gott úr þessu. Við erum alltaf að reyna að finna leiðir til að laga hlutina í samvinnu við félögin,“ sagði Jörundur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert