„Þetta leggst hrikalega vel í mig,“ sagði Sölvi Geir Ottesen, nýráðinn þjálfari karlaliðs Víkings úr Reykjavík í knattspyrnu, í samtali við mbl.is í Víkingsheimilinu í Fossvogi í dag.
Sölvi Geir, sem er fertugur, skrifaði undir þriggja ára samning við Víkinga en hann tekur við liðinu af Arnari Gunnlaugssyni sem var ráðinn þjálfari íslenska karlalandsliðsins á dögunum.
Sölvi þekkir vel til í Fossvoginum en hann er uppalinn hjá félaginu og lék með því frá 2001 til 2004 og svo aftur frá 2018 til ársins 2021. Hann varð Íslands- og bikarmeistari með Víkingum árið 2021 og þá var hann ráðinn aðstoðarþjálfari liðsins árið 2022.
„Ég er stoltur að taka við liðinu af Arnari og ég er líka mjög þakklátur fyrir það traust sem mér er sýnt af forráðamönnum félagsins. Ég er í góðri æfingu eftir síðasta sumar þar sem ég fékk að stýra liðinu í nokkrum leikjum. Hann var nálægt því að taka við Norrköping í fyrra og þá var ég sjálfur byrjaður að undirbúa mig fyrir þetta.
Það hefur verið mikið í umræðunni að hann gæti verið á förum þannig að maður gerði alltaf ráð fyrir því að hann myndi á einhverjum tímapunkti yfirgefa félagið enda hefur hann lengi verið heitt nafn á þjálfaramarkaðnum eftir frábæran árangur með Víkinga á síðustu árum. Maður er því búinn að vera með það á bakvið eyrað í einhvern tíma að geta tekið við liðinu,“ sagði Sölvi.
Var þetta góður skóli að vinna undir Arnari?
„Algjörlega. Eins og nýjasta starfið hans gefur til kynna þá er hann einn af okkar færustu þjálfurum. Hann hefur unnið frábært starf í Víkinni og komið með allskonar nýjungar inn í starfið hérna og íslenskan fótbolta. Það var virkilega ánægjulegt að fá tækifæri til þess að vinna með honum. Hann er frábær þjálfari og góður vinur líka,“ sagði Sölvi Geir í samtali við mbl.is.