Víkingar hófu eiginlegan undirbúning fyrir leikina tvo gegn Panathinaikos í umspili Sambandsdeildarinnar í fótbolta þegar þeir mættu Fjölni í Reykjavíkurmótinu í Egilshöllinni í kvöld.
Þetta var fyrsti leikur Sölva Geirs Ottesens sem þjálfara Víkings eftir að hann var formlega ráðinn arftaki Arnars Gunnlaugssonar.
Víkingar höfðu spilað tvo leiki en teflt nánast fram 2. flokki sínum í tapleikjum gegn ÍR og KR, 6:1 og 5:2. Í kvöld var stór hluti liðsins með en Víkingar náðu þó naumlega jafntefli, 2:2, með sjálfsmarki Fjölnismanna á 88. mínútu.
Hin mörkin komu í fyrri hálfleik en Árni Steinn Sigursteinsson og Rafael Máni Þrastarson komu þá Fjölni tvisvar yfir en Daníel Hafsteinsson skoraði fyrir Víking á 29. mínútu.
Víkingar eiga eftir að mæta Leikni í Reykjavíkurmótinu og HK í deildabikarnum áður en þeir mæta Panathinaikos í Helsinki 13. febrúar og í Aþenu 20. febrúar.
Ljóst er að KR vinnur þennan riðil Reykjavíkurmótsins, A-riðilinn og mætir Val, Fylki eða Þrótti í úrslitaleik en þau eiga öll sigurmöguleika í B-riðlinum fyrir lokaumferðina á laugardaginn.