Þorsteinn um Dagnýju: Ákveðin vonbrigði

Þorsteinn Halldórsson og Dagný Brynjarsdóttir.
Þorsteinn Halldórsson og Dagný Brynjarsdóttir. mbl.is/Samsett mynd

Þorsteinn Halldórsson, þjálfari kvennalandsliðs Íslands í knattspyrnu, segir það ákveðin vonbrigði hversu lítið Dagný Brynjarsdóttir hefur spilað með félagsliði sínu West Ham undanfarið.

Dagný kom til baka eftir árs fjarveru, eftir að hún eignaðist sitt annað barn, fyrir tímabilið í ensku úrvalsdeildinni og snýr nú aftur í íslenska landsliðshópinn fyrir leikina gegn Sviss og Frakklandi í Þjóðadeildinni.

Dagný byrjaði fyrstu þrjá leiki liðsins í ensku deildinni en síðan hefur verið hlutverk hennar að koma inn á sem varamaður. Þorsteinn segir þróunina vonbrigði.

„Hún hefur staðið sig ágætlega en ekki fengið mikið af mínútum síðastliðna þrjá mánuði. 

Hún byrjaði mikið af leikjum á undirbúningstímabilinu sem og fyrstu þrjá leikina í deildinni. Síðan hefur mínútum fækkað sem eru ákveðin vonbrigði. 

Hún er að koma til baka eftir rúmlega árs fjarveru og að hún sé að byrja hátt og síðan minnka mínúturnar hennar eru vonbrigði. 

Það er neikvæði hlutinn en hún er á réttri leið. Vonandi nær hún sér á strik með okkur og síðan West Ham,“ sagði Þorsteinn. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert