Knattspyrnumaðurinn Þorri Mar Þórisson er að yfirgefa sænska félagið Öster og á heimleið en hann kom til Öster frá KA árið 2023.
Smålandsposten í Svíþjóð greinir frá. Þorri hefur ekki náð að vinna sér inn sæti í byrjunarliði Öster, sem vann sér inn sæti í úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð. Hann er samningsbundinn Öster til ársins 2026.
Hann var aðeins einu sinni í byrjunarliði Öster á síðustu leiktíð og fimm sinnum á sinni fyrstu leiktíð með liðinu. Hann missti af síðustu mánuðum síðasta tímabils vegna meiðsla.
Þorri hefur einnig leikið með Keflavík og var um tíma hjá Hannover í Þýskalandi þar sem hann lék með U19 ára liði félagsins.
Dalvíkingurinn hefur leikið 66 leiki í efstu deild Íslands og skorað í þeim þrjú mörk.