Framganga Víkinga rædd á stjórnarfundi KSÍ

Stígur Diljan Þórðarson.
Stígur Diljan Þórðarson. Ljósmynd/Víkingur

Framganga Víkings úr Reykjavík í Reykjavíkurmóti karla var til umræðu á stjórnarfundi Knattspyrnusambands Íslands þann 29. janúar síðastliðinn.

Þetta kemur fram í fundargerð sambandsins en KSÍ sektaði Víkinga um samtals 240.000 krónur fyrir að tefla fram ólöglegum leikmanni í þremur leikjum mótsins í janúarmánuði.

Leikmaðurinn sem umræðir er Stígur Diljan Þórðarson en hann gekk til liðs við Víkinga á Þorláksmessu en fékk ekki leikheimild með félaginu fyrr en 5. febrúar.

Stjórnarmenn skiptust á skoðunum

„Stjórnarmenn ræddu framgöngu Víkings í Reykjavíkurmóti meistaraflokks karla, að tefla vísvitandi fram ólöglega skipuðu liði í þremur leikjum, og áhrif þeirrar framgöngu á heilindi og trúverðugleika mótsins,“ segir í fundargerð KSÍ.

„Stjórnarmenn skiptust á skoðunum um málið, ræddu þá stöðu sem mótið er komið í og um framtíð þess innan KSÍ,“ segir ennfremur í fundargerðinni.

Kári Árnason, yfirmaður knattspyrnumála hjá Víkingum, tjáði sig um athæfið þegar umræðan var í hámæli og sagði meðal annars að Víkingar myndu nota hvert tækifæri sem gæfist til þess að nota Stíg Diljan fyrir leikina mikilvægu gegn Panathinaikos í umspili Sambandsdeildarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert