Knattspyrnuþjálfarinn Úlfur Arnar Jökulsson hefur verið rekinn sem þjálfari karlaliðs Fjölnis í fótbolta eftir þrjú tímabil með liðið. Félagið greindi frá tíðindunum á Facebook-síðu sinni rétt í þessu.
Úlfur skrifaði undir nýjan tveggja ára samning við Fjölni í október eftir að liðið endaði í þriðja sæti 1. deildar undir hans stjórn en tapaði fyrir Aftureldingu í umspili um sæti í Bestu deildinni.
„Við viljum þakka Úlla áralangt samstarf. Undir hans stjórn hefur fjöldi ungra pilta úr Grafarvogi fengið tækifæri með meistaraflokki félagsins. Þá hefur árangur liðsins verði með ágætum.
Honum fylgja bestu óskir um gæfu í því sem hann tekur sér fyrir hendur,“ er haft eftir Björgvin Jóni Bjarnasyni, formanni knattspyrnudeildar Fjölnis, í yfirlýsingu félagsins.