Leiðinlegt að ekki sé spilað á Íslandi

Sverrir Ingi Ingason fagnar í leik með Panathinaikos.
Sverrir Ingi Ingason fagnar í leik með Panathinaikos. Ljósmynd/Panathinaikos

Sverrir Ingi Ingason og samherjar hans hjá gríska liðinu Panathinaikos mæta Víkingi úr Reykjavík í fyrri leik liðanna í umspili um sæti í 16-liða úrslitum Sambandsdeildar Evrópu í fótbolta á fimmtudagskvöld.  

Því miður fyrir Víkinga og Sverri verður leikurinn spilaður á Bolt Arena-vellinum í Helsinki í Finnlandi. Er um heimavöll HJK að ræða. Framkvæmdir standa yfir á Laugardalsvelli og Kópavogsvöllur, þar sem Víkingur spilaði í deildarkeppninni, er ekki löglegur.

„Það er leiðinlegt fyrir mig að ekki sé spilað á Íslandi. Það hefði verið mikil upplifun að koma heim og spila á Íslandi í Evrópukeppni. Kringumstæðurnar eru hins vegar eins og þær eru og þess vegna förum við til Helsinki.

Það verður gaman að prófa þetta því ég hef aldrei spilað við íslenskt lið síðan ég gerðist atvinnumaður. Þetta verður skemmtileg reynsla og ég hlakka mikið til,“ sagði Sverrir við Morgunblaðið. 

Viðtalið má nálgast í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins sem kom út í morgun. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert