Bróðir Danijels: Hann er mjög misskilinn

Nikola Dejan Djuric tilbúinn í slaginn í Helsinki í dag.
Nikola Dejan Djuric tilbúinn í slaginn í Helsinki í dag. mbl.is/Jóhann Ingi

„Mér líður vel. Ég er hrikalega bjartsýnn og spenntur,“ sagði Nikola Dejan Djuric, bróðir Danijels Dejans Djuric, leikmanns Víkings í Reykjavík, í samtali við mbl.is í miðborg Helsinki í Finnlandi í dag.

„Sama hvað gerist þá er þetta búið að vera geggjað ævintýri og vonandi vinnum við þennan leik,“ bætti hann við.

Nikola er að fylgja yngri bróðir sínum í fyrsta skipti erlendis í leik en hann er duglegur að fylgjast með Danijel heima.

„Ég mæti á alla leiki með honum á Íslandi og er duglegur að styðja hann. Þetta gerist ekki betra. Þetta er stærsti leikur í sögunni hjá íslensku knattspyrnuliði.“

Danijel fær stundum neikvæða umfjöllun um sig og hefur m.a. verið sakaður um leikaraskap. Nikola segir bróðir sinn misskilinn. 

„Það er partur af leiknum. Hann er mjög misskilinn og góð manneskja. Við reynum að lesa ekki neikvæðu fréttirnar. Við tökum þetta ekkert inn á okkur því lífið heldur bara áfram.“

En hvernig spáir Nikola leiknum? 

„Ég held það verði lítið af mörkum en ég held að við tökum þetta 1:0. Gervigrasið og kuldinn hjálpa. Þetta er ekkert ósvipað og að vera í Víkinni,“ sagði Nikola sem er tveimur árum eldri en Danijel og hefur undanfarin ár leikið Haukum, Þrótti úr Vogum, KV og Hvíta riddaranum í 1., 2. og 3. deild, og spilaði einnig með yngri landsliðum Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert