Ekki hræddir þótt við séum frá Íslandi

Danijel Dejan Djuric og Davið Örn Atlason eigast við á …
Danijel Dejan Djuric og Davið Örn Atlason eigast við á æfingu Víkingsliðsins í Helsinki. Ljósmynd/Eemil Kari

„Mér finnst möguleikarnir okkar góðir,“ sagði Danijel Dejan Djuric, leikmaður Víkings úr Reykjavík, í samtali við mbl.is um leik liðsins við gríska liðið Panathinaikos í Sambandsdeild Evrópu í fótbolta.

Flestir búast við sigri gríska liðsins en Danijel var brattur þegar hann ræddi við mbl.is á hóteli Víkingsliðsins í Finnlandi.

„Við þurfum ekki að vaða í þá í fyrri leiknum því þetta er tveggja leikja einvígi. Við munum alltaf eiga möguleika ef við spilum varnarleikinn sem einkennir Ísland og íslensk lið. Við þurfum á sama tíma að vera hugrakkir og megum ekki bara vera inni í skelinni.

Við verðum að þora að fá boltann þótt þeir séu með betri fótboltamenn. Við megum ekki vera hræddir þótt við séum frá litla Íslandi. Þetta eru bara manneskjur eins og við og við þurfum að fara út með kassann og spila eins og við kunnum.“

Danijel Dejan Djuric
Danijel Dejan Djuric mbl.is/Eyþór Árnason

Danijel er sjálfur í góðu formi um þessar mundir og skoraði hann glæsilegt mark gegn HK í deildabikarnum á dögunum.

„Ég negldi boltanum upp í skeytin og ég tek það með í leikinn. Ég lofa kannski ekki slummu upp í skeytin en ég mun reyna að skjóta eitthvað,“ sagði hann léttur.

Eins og gefur að skilja er Danijel svekktur yfir að leikurinn fari ekki fram á Íslandi en á sama tíma verða aðstæður í Finnlandi ekki ósvipaðar þeim sem eru heima.

„Auðvitað væri maður til í að hafa þetta á Íslandi en við megum ekki spá í því. Svo lengi sem það er ekki vindur þá er ég góður. Ég hata að spila þegar það er vindur. En þessar aðstæður ættu að henta okkur betur,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert