Markvörðurinn Ingvar Jónsson var kampakátur er hann ræddi við mbl.is í kvöld enda nýbúinn að spila mjög vel í glæsilegum sigri Víkings á Panathinaikos í Sambandsdeild Evrópu í fótbolta í Helsinki.
„Mér líður ótrúlega vel. Það var rosalega sérstakt að spila þennan leik eftir allan þennan undirbúning. Maður áttar sig ekki á þessu alveg strax,“ sagði Ingvar.
Panathinaikos skoraði markið sitt úr víti í uppbótartíma og var Ingvar nálægt því að verja. Fór hann í rétt horn en skotið reyndist of fast.
„Fyrst eftir leik var ég svekktur að verja ekki vítið því ég var svo nálægt því og ég vissi hvert hann væri að fara að skjóta. Þetta voru samt geðveik úrslit,“ sagði Ingvar og hélt áfram:
„Þetta var svo langur aðdragandi að ég spjallaði við hann og komst í höfuðið á honum. Ég var pottþéttur á því hvert hann væri að fara að skjóta og ég lagði snemma af stað en þetta var frábært víti.“
Liðsmenn Panathinakos voru lítið hrifnir af því að spila í miklu frosti og á gervigrasi. Víkingsliðið þekkir slíkar aðstæður betur.
„Mér leist eiginlega ekkert á þetta fyrsta korterið og svo komumst við allt í einu í 1:0 og þeim brá við það. Aðstæðurnar voru ekkert stórkostlegar og þeir pirruðu sig mikið á því. Ég var þokkalega rólegur á meðan á leiknum stóð þótt mér hafi ekki litist sérstaklega vel á orkustigið okkar til að byrja með. Svo batnaði það og það komu ferskir menn inn á í seinni hálfleik og stóðu sig frábærlega.“
Mikill fögnuður braust út á meðal allra sem tengdust Víkingi í Helsinki eftir leikinn.
„Það var geggjað að fá að fagna eftir leik. Menn voru ekki vissir við hverju var að búast. Þeir voru að kvarta yfir lélegum velli og mönnum í meiðslum en það voru lykilmenn hjá okkur í banni og meiddir. Ég er ótrúlega stoltur og ánægður með þennan sigur,“ sagði Ingvar.