Líðan utan vallar ekki nægilega góð

Daníel á æfingu með Víkingi í Helsinki.
Daníel á æfingu með Víkingi í Helsinki. Ljósmynd/Eemil Kari

Akureyringurinn Daníel Hafsteinsson fór ungur að árum til Helsingborg í Svíþjóð frá uppeldisfélaginu KA. Miðjumaðurinn náði ekki að vinna sér inn fast sæti í liðinu og var kominn heim skömmu síðar, fyrst að láni til FH og svo samdi hann alfarið við KA.

Daníel lék svo með KA þar til hann samdi við Víking í Reykjavík á dögunum. Hann útskýrði dvölina í Svíþjóð við mbl.is á hóteli Víkingsliðsins í Helsinki þar sem það dvelur í undirbúningi sínum við leikinn gegn Panathinaikos í Sambandsdeildinni.

„Ég er ekki beint svekktur. Maður var ungur og að gera þetta í fyrsta skipti. Þetta er kannski ekki fyrir alla og mismunandi tímapunktar henta fólki misvel. Það fer eftir þroska og að hverju maður leitar.

Ég hefði kannski viljað gera eitthvað aðeins öðruvísi en maður getur ekki hugsað um það öll kvöld. Hausinn er ótrúlega mikill partur af þessu í fótboltanum. Það er stutt á milli þess að vera aðalmaðurinn og svo að vera kominn á bekkinn,“ sagði hann.

Daníel Hafsteinsson í treyju Helsingborg.
Daníel Hafsteinsson í treyju Helsingborg. Ljósmynd/Helsingborg

Daníel gaf svo í skyn að honum hefði ekki liðið sérstaklega vel í Svíþjóð.

„Það hefði örugglega farið betur ef líðanin hefði verið upp á 10,5. Maður var 19 ára, nýútskrifaður og allir vinirnir fyrir norðan. Maður var mikið með vinunum á þessum tíma og því breyting fyrir mig að fara í annað umhverfi,“ sagði Daníel.

Hann er sannfærður um að gæðin séu til staðar til að vera atvinnumaður.

„Ég taldi mig alltaf nægilega góðan til að vera þarna en líðan utan vallar var ekki eins og best verður á kosið. Svo þroskast maður og það þýðir ekki að vera með neina eftirsjá. Það er ekki endilega markmið númer 1, 2 og 3 að fara aftur út. Ég var opinn fyrir öllu í haust og maður skoðar það á næstu árum ef eitthvað spennandi kemur upp.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert