Ari Sigurpálsson, knattspyrnumaður hjá Víkingi í Reykjavík, er klár í slaginn fyrir leik liðsins í kvöld við gríska stórliðið Panathinaikos í umspili um sæti í 16-liða úrslitum Sambandsdeildar Evrópu í fótbolta. Heimaleikur Víkings er leikinn á Bolt Arena-vellinum í Helsinki vegna slæmra vallarmála á Íslandi.
Víkingur tryggði sér sæti í umspilinu með því að lenda í 19. sæti í deildarkeppninni með átta stig úr sex leikjum. Víkingsliðið vann tvo leiki, gerði tvö jafntefli og tapaði tveimur leikjum. Síðan þá hefur Sölvi Geir Ottesen tekið við þjálfun Víkings af Arnari Gunnlaugssyni sem er orðinn landsliðsþjálfari karla.
„Sölvi hefur komið virkilega vel inn í þetta. Það er rosalega mikill metnaður í honum að gera vel. Hann er með svipaðar áherslur en samt ekki eins. Mér líst ótrúlega vel á þetta. Þetta hefur verið framar vonum síðan hann tók við,“ sagði Ari í samtali við Morgunblaðið á hóteli Víkingsliðsins í Helsinki.
„Arnar er einn besti þjálfari á Íslandi og það er erfitt að taka við af honum en Sölvi er flottur. Þetta eru ekki stórar breytingar fyrir okkur leikmennina. Ég held að það sé gott að fá aðeins nýja rödd í þetta og aðeins öðruvísi nálgun. Það er flott að fá ferskan blæ því Arnar var lengi með okkur. Mér finnst þetta geggjað,“ sagði Ari.
Arnar fékk Ara til Víkings árið 2022 en Ari, sem er uppalinn hjá HK, fór ungur að árum til Bologna á Ítalíu. Þaðan lá leiðin í Fossvoginn þar sem hann hefur verið mikilvægur í sigursælu Víkingsliði.
„Ég er Arnari mjög þakklátur. Hann tók sénsinn á mér og fékk mig inn í þetta sterka Víkingslið árið 2022. Hann gaf mér tækifæri til að sýna mig hjá Víkingi og í Bestu deildinni. Ég get ekki þakkað honum nógu vel fyrir það,“ sagði hann.
Viðtalið má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.