Núna er ég vondi karlinn

Víkingsliðið æfði í Helsinki í gær.
Víkingsliðið æfði í Helsinki í gær. Ljósmynd/Eemil Kari

„Mér líður mjög vel. Þetta er stórt fyrsta alvöruverkefni sem aðalþjálfari,“ sagði Sölvi Geir Ottesen, nýr þjálfari karlaliðs Víkings í fótbolta, í samtali við mbl.is á hóteli liðsins í Helsinki fyrir fyrri leikinn við Panathinaikos í Sambandsdeildinni.

„Ég tek við einu sterkasta liði Íslands og svo er fyrsta verkefnið í stærri kantinum. Maður þurfti að aðlagast fljótt og hella sér í þetta hlutverk. Ég er að njóta mín í því og hef verið fljótur að læra á sjálfan mig. Þetta hefur gengið mjög vel hingað til.“

„Við erum mjög einbeittir á okkur sjálfa og fyrir okkur snýst leikurinn um hvað við getum gert á móti Panathinaikos. Fyrir mér er það bara skemmtilegt hvað leikurinn sjálfur er stór og mikilvægur,“ sagði Sölvi.

Hann var aðstoðarmaður Arnars Gunnlaugssonar hjá Víkingum og tók svo við liðinu þegar Arnar gerðist landsliðsþjálfari.

Sölvi Geir Ottesen og Arnar Gunnlaugsson voru gott teymi.
Sölvi Geir Ottesen og Arnar Gunnlaugsson voru gott teymi. Ljósmynd/Kristinn Steinn

„Þetta er allt annað og ábyrgðin er mun meiri. Ég var í því að halda utan um leikmenn og spjalla við þá sem aðstoðarþjálfari en núna er ég vondi karlinn því ég tek stóru ákvarðanirnar. Áður gat ég skýlt mér á bak við það að Arnar tæki ákvarðanir þegar ég ræddi við leikmenn.

Það er það leiðinlega við þjálfaragiggið, að skilja leikmenn eftir sem finnst þeir eiga skilið að vera inni á. Þá er mikilvægt að vera í góðu sambandi við þá og vera hreinskilinn. Ég er alltaf til í að útskýra mínar ákvarðanir,“ sagði hann.

Arnar náði einstaklega góðum árangri með Víking og Sölvi er tilbúinn að taka við af nýráðna landsliðsþjálfaranum.

„Arnar skilaði frábærum árangri í Víkinni og við verðum honum ævinlega þakklátir fyrir það en nú eru nýir tímar. Nú er minn tími kominn og kominn tími fyrir mig að sanna mig sem þjálfara. Ef ég næ sama árangri og hann get ég verið mjög sáttur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert