Georgios Tzavellas, íþróttastjóri Panathinaikos, fékk rautt spjald eftir að liðið tapaði óvænt 2:1 fyrir Víkingi úr Reykjavík í fyrri leik liðanna í umspili um sæti 16-liða úrslitum Sambandsdeildarinnar í fótbolta í kvöld.
Tzavellas, sem er fyrrverandi knattspyrnumaður og lék á sínum tíma 50 A-landsleiki fyrir Grikkland, lét öllum illum látum á varamannabekknum í kvöld.
Hann var á leikskýrslu og fékk gult spjald undir lok leiks og svo annað gult og þar með rautt eftir að búið var að flauta til leiksloka.
„Hann var alveg trítilóður á bekknum og reif kjaft við allt og alla. Krækti sér í gult spjald í leiknum og svo fékk hann sitt annað gula og þar með rautt fyrir að froðufella eftir leikinn,“ sagði um brottvikningu Tzavellas í skýrslu Fótbolta.net um leikinn.