„Mér líður hrikalega vel. Þetta var virkilega flottur leikur og vel spilaður af okkar hálfu fannst mér,“ sagði Sölvi Geir Ottesen, þjálfari Víkings úr Reykjavík, eftir frækinn 2:1-sigur á gríska stórliðinu Panathinaikos í Sambandsdeild Evrópu í knattspyrnu karla í kvöld.
„Við vorum hrikalega þéttir varnarlega. Við vörðum vítateiginn okkar eins og stríðsmenn. Sálin og hjartað sem leikmennirnir lögðu í þetta, ég bjóst við miklu af þeim en í raun og veru bjóst ég ekki við því að þeir gætu lagt svona mikið á sig.
Ég er virkilega stoltur af frammistöðunni, hjartanu og baráttuviljanum sem þeir sýndu allan leikinn. Þeir slökktu aldrei á sér í leiknum, þeir voru alltaf tilbúnir og hún er nánast ólýsanleg frammistaðan hjá þessum strákum.
Þeir lögðu allt í þetta og það var akkúrat það sem ég bað þá um að gera. Leikurinn spilaðist nokkurn veginn eins og við vissum eða bjuggumst við. Þeir fengu sín augnablik til þess að herja á okkur. Við vissum að við þyrftum að verja vítateiginn vel og bakka hvern annan upp.
Við vissum líka að við myndum fá okkar færi, að við myndum fá tækifæri til þess að spila boltanum og við gerðum það vel á köflum. Við vorum hugrakkir í að halda boltanum, láta hann ganga á milli kantanna og sækja.
Síðan nýttum við líka skyndisóknir okkar vel, þannig séð. Við vorum að komast í hættulegar stöður í skyndisóknum. Mér leið í rauninni vel með þennan leik frá byrjun til enda,“ bætti Sölvi Geir við.
Víkingur fékk dæmda á sig vítaspyrnu undir lok leiks og sagði hann það svekkjandi, sérstaklega þar sem útlit er fyrir að um rangan dóm hafi verið að ræða.
„Já, þetta eru lítil smáatriði, eða stór smáatriði hvað vítaspyrnuna varðar. Ég á eftir að sjá það aftur. Ég hef ekki séð endurtekningar á því en mér heyrðist það á leikmönnum að það var búið að flauta áður en þetta olnbogaskot kemur.
Að hann hafi flautað á víti, sem var síðan ekki víti, en dæmir síðan á olnbogaskot sem gerist eftir flautið. Þá er hann búinn að flauta þannig að í raun og veru ætti þetta mark ekki að standa.
Það er gríðarlega svekkjandi ef svo er af því að 2:0 forskot í seinni leikinn væri töluvert betra en eins marks forskot. Það er vissulega svekkjandi og stór mistök hjá dómurunum ef svo er,“ útskýrði Sölvi Geir.
Víkingar þurftu að bíða lengi eftir staðfestingu á öðru marki sínu. Hvernig leið honum að þurfa að bíða svo lengi?
„Ég var rosalega rólegur yfir því. Ég hef svolítið imprað á því við leikmenn að einbeita sér að hlutum sem við stjórnum. Ég var eiginlega með þannig hugarfar. Ég hafði enga stjórn á þessu þannig að ég leyfði því bara að koma hvernig sem það yrði.
Ég var undirbúinn fyrir bæði þannig að ég leyfði þessu bara að koma. Mér leið ágætlega en vissulega vonaði ég að þetta yrði mark!“ sagði Sölvi Geir og bætti því við að Víkingar ætluðu að fagna vel.
„Við vorum að tala um að þetta væri stærsti sigur í íslenskum félagsliðafótbolta. Að við skulum hafa endað sem sigurvegarar miðað við hvar í deildinni andstæðingurinn er og stærð þessa leiks er náttúrlega rúsínan í pylsuendanum.
Við þurfum að koma okkur fljótt aftur niður á jörðina því það er leikur aftur eftir viku. Það er leikur sem við ætlum að vinna og koma okkur áfram. Við erum með það markmið að komast í 16-liða úrslit.
Við erum ekki hérna bara til þess að taka þátt. Við komum í alla leiki til þess að vinna þá og þetta er engin undantekning. Við ætlum að fagna í kvöld. Við ætlum kannski að fagna aðeins á morgun en síðan fer fullur fókus á seinni leikinn.“