Magnaður sigur Víkinga í Sambandsdeildinni

Davíð Örn Atlason fagnar eftir að hafa komið Víkingum yfir …
Davíð Örn Atlason fagnar eftir að hafa komið Víkingum yfir í Helsinki í kvöld. Ljósmynd/Víkingur

Víkingur úr Reykjavík vann glæsilegan sigur á gríska stórliðinu Panathinaikos, 2:1, í fyrri leik liðanna í umspili um sæti í 16-liða úrslitum Sambandsdeildar Evrópu í knattspyrnu karla á Bolt Arena í Helsinki í kvöld.

Var um fyrsta leik og fyrsta sigur íslensks knattspyrnuliðs í útsláttarkeppni í Evrópu að ræða.

Davíð Örn Atlason og Matthías Vilhjálmsson skoruðu mörk Víkinga. Sverrir Ingi Ingason lék allan leikinn í vörn Panathinaikos. Liðin mætast í síðari leiknum í Aþenu eftir slétta viku.

Panathinaikos hóf leikinn af krafti og fékk dauðafæri strax á þriðju mínútu. Grikkirnir komust þá upp að endamörkum vinstra megin, boltinn barst út til Anastasios Bakasetas sem skaut við markteiginn en Ingvar Jónsson í marki Víkings varði vel.

Gestirnir héldu boltanum og Filip Djuricic reyndi skot skömmu síðar rétt fyrir utan vítateig, skotið stefndi í hornið vinstra megin en Ingvar gerði aftur vel í að verja.

Það var hins vegar Víkingur sem náði forystunni á 13. Mínútu. Ari Sigurpálsson byrjaði þá á því að gera vel í að vinna aukaspyrnu við endamörkin vinstra megin. Daníel Hafsteinsson tók hana og Yuri Lodygin í marki Panathinaikos kýldi boltann frá.

Aron Elís Þrándarson lagði boltann út á Tarik Ibrahimagic sem þrumaði að marki fyrir utan vítateig, boltinn fór af varnarmanni og upp í loftið þar sem Lodygin reyndi að kýla boltann frá, tókst ekki og Erlingur Agnarsson skallaði boltann til hliðar á Davíð Örn sem renndi honum í autt markið.

Var um fyrsta mark Davíðs Arnar að ræða í Evrópukeppni.

Leikmenn Víkings stilla sér upp fyrir leikinn í Helsinki.
Leikmenn Víkings stilla sér upp fyrir leikinn í Helsinki. Ljósmynd/Víkingur

Fimm mínútum síðar komst Panathinaikos nálægt því að jafna metin þegar boltinn datt fyrir Daniel Mancini í vítateignum en Ingvar varði mjög vel með fótunum.

Á 22. mínútu átti Daníel glæsilega tilraun á lofti fyrir utan vítateig eftir að Panathinaikos skallaði frá en skotið smaug rétt framhjá samskeytunum hægra megin.

Eftir hálftíma leik fékk Alexander Jeremeff opið skallafæri í vítateignum eftir fyrirgjöf frá hægri en skallinn af stuttu færi var nokkuð laus og beint á Ingvar sem varði enn einu sinni.

Undir lok hálfleiksins átti Sverrir Ingi Ingason skalla eftir aukaspyrnu Giannis Kotsiras af hægri kantinum en hann fór yfir markið.

Staðan í leikhléi var því 1:0, Víkingi í vil, eftir frábæran fyrri hálfleik.

Matthías tvöfaldaði forystuna

Snemma í síðari hálfleik fékk Panathinaikos aukaspyrnu á hættulegum stað. Karol Swiderski tók skotið en það fór framhjá varnarveggnum og markinu. Stuttu síðar, á 56. mínútu, tvöfaldaði Víkingur forystuna.

Valdimar Þór Ingimundarson gerði þá frábærlega í að koma boltanum á Erling við vítateigslínuna, hann þrumaði að marki, skotið fór af varnarmanni og þaðan í stöngina áður en Matthías, sem var nýkominn inn á sem varamaður, smellti boltanum í autt markið af stuttu færi.

Markið var upphaflega dæmt af þar sem Ari þótti byrgja Lodygin sýn í markinu í rangstöðu. Eftir langa athugun í VAR reyndist svo ekki vera enda var rússneski markvörðurinn inni í markinu þegar Matthías skoraði og hafði Ari því engin áhrif á leikinn.

Eftir rúmlega klukkutíma leik fékk Víkingur gott færi til þess að bæta við þriðja markinu en þversending Valdimars Þórs vinstra megin úr vítateignum eftir góða sókn var aðeins of föst og Erlingur náði ekki til boltans á markteig.

Víkingur var hættulegri aðilinn eftir þetta á meðan Grikkirnir máttu sín lítils gegn sterkum varnarmúr Víkinga.

Vítaspyrna dæmd á Víkinga

Átta mínútum fyrir leikslok átti Panathinaikos hins vegar stórhættulega tilraun. Eftir laglega sókn fékk Tete boltann í D-boganum, skaut viðstöðulaust beint í samskeytin þaðan sem boltinn skoppaði í jörðina og Ingvar greip svo boltann.

Þremur mínútum fyrir leikslok var dæmd vítaspyrna á Víking. Hendi var dæmd á Helga Guðjónsson. Dómarinn athugaði málið í VAR-skjánum og ákvað að halda sig við vítaspyrnudóminn.

Fotis Ioannidis steig á vítapunktinn á fyrstu mínútu uppbótartíma og skoraði með góðu skoti í hornið þó Ingvar hafi farið í rétt horn.

Á fimmtu mínútu uppbótartíma kom varamaðurinn Danijel Dejan Djuric boltanum á Valdimar Þór sem náði skalla af örstuttu færi en á einhvern ótrúlegan hátt varði Lodygin.

Víkingur pressaði stíft það sem eftir lifði leiks en fleiri urðu mörkin ekki og frækinn eins marks sigur niðurstaðan.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Víkingur R. 2:1 Panathinaikos opna loka
90. mín. Valdimar Þór Ingimundarson (Víkingur R.) á skalla sem er varinn +5 Dauðafæri! Hvernig fór þetta ekki inn? Danijel Dejan með glæsilega sendingu á Valdimar Þór sem nær skallanum af örstuttu færi en á einhvern ótrúlegan hátt ver Lodygin!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert