„Þetta var sturlað og ekki hægt að biðja um betri fyrsta leik,“ sagði Daníel Hafsteinsson, leikmaður Víkings úr Reykjavík, í samtali við mbl.is eftir sigurinn magnaða á Panathinaikos í Sambandsdeild Evrópu í fótbolta í kvöld, 2:1.
Daníel samdi við Víkinga um áramótin og var að spila sinn fyrsta stóra keppnisleik fyrir liðið. Það má segja að um draumabyrjun hafi verið að ræða.
„Það var mjög skemmtilegt að spila þennan leik og manni leið vel inni á vellinum. Þetta var fyrsti stóri leikurinn í nýju liði og maður var 99 prósent með á hreinu hvað maður átti að gera. Svo á maður eftir að tengja enn betur við strákana. Þá verður þetta enn betra,“ sagði hann.
Daníel var hársbreidd frá því að koma Víkingi í 2:0 í fyrri hálfleik með fallegu skoti á lofti en boltinn fór rétt fram hjá stönginni. „Ég hélt hann væri á leiðinni í markið því hann virtist vera að fljúga í skeytin. Þetta hefði verið sturlað mark.“
Panathinakos var mikið með boltann á köflum í leiknum en Daníel hafði ekki miklar áhyggjur af því.
„Ég hef spilað í liðum þar sem maður þarf að verjast og mér líður oftast vel þegar maður er kominn í takt. Þeir máttu alveg hafa boltann því þeir sköpuðu sér ekki mikið. Mér leið því alveg nokkuð vel.“
Mark gríska liðsins kom í blálokin úr vítaspyrnu sem dæmd var á Daníel en miðjumaðurinn var allt annað en sáttur við dóminn.
„Mér fannst þessi vítadómur glórulaus en mér skilst að hann hafi dæmt á mig. Hann flautaði fyrst hendi, sem var síðan ekki víti. Svo er dæmt á mig fyrir atvik sem gerðist eftir að hann flautaði. Mér fannst það ósanngjarnt. Við kvörtum samt ekki eftir sigur við Panathinaikos.“