Víkingar fá góðar tekjur frá Knattspyrnusambandi Evrópu, UEFA, fyrir frammistöðu sína í Sambandsdeild karla.
Samkvæmt vefsíðunni Football Coefficient sem heldur utan um stig og peningaupphæðir til félaganna eru Víkingar komnir með rúmlega 5,7 milljónir evra í tekjur, eða um 838 milljónir íslenskra króna.
Þar af fengu þeir 29 milljónir fyrir að tryggja sér sæti í umspilinu þar sem þeir unnu Panathinaikos, 2:1, í fyrri leiknum í Helsinki í gærkvöld.
Nú er heldur betur mikið í húfi í seinni leiknum í Aþenu næsta fimmtudagskvöld. Greiðslan fyrir að komast í 16-liða úrslit Sambandsdeildarinnar er 800 þúsund evrur, eða rúmlega 117 milljónir króna.
Með því væru Víkingar komnir með um 955 milljónir króna í heildartekjur af keppninni frá því þeir hófu undankeppni Meistaradeildarinnar síðasta sumar og því farnir að nálgast milljarðinn.
Hin þrjú íslensku félögin sem tóku þátt í Evrópumótunum og féllu öll út í 2. umferðinni síðasta sumar, Valur, Breiðablik og Stjarnan, fá samtals rúmlega 300 milljónir króna frá UEFA fyrir þátttökuna, eða í kringum 100 milljónir hvert félag.