Erlendir fjölmiðlar fjalla um félagaskipti Gylfa Þórs Sigurðssonar frá Val til Víkings í Reykjavík en Víkingur keypti miðjumanninn af Val í dag.
Gylfi er markahæsti leikmaður íslenska landsliðsins frá upphafi og þá lék hann um tíma í ensku úrvalsdeildinni með Swansea, Tottenham og Everton.
Danski miðillinn Tipsbladet fjallar um „hádramatísk“ skipti Gylfa á heimasíðu sinni og vitnar í ummæli Björns Steinars Jónssonar, formanns knattspyrnudeildar félagsins, en hann gagnrýndi Gylfa harðlega í pistli á Facebook í dag.
Þá fjallar Fotbollskanalen í Svíþjóð, Sportsbibelen í Noregi, Bold í Danmörku og In.fo í Færeyjum m.a. um félagaskiptin. Færeyski miðilinn leggur áherslu á að Gylfi verði nú liðsfélagi Gunnars Vatnhamars, landsliðsmanns Færeyja.