Samþykktu tvö tilboð í Gylfa Þór Sigurðsson

Gylfi Þór Sigurðsson.
Gylfi Þór Sigurðsson. Ljósmynd/Alex Nicodim

Forráðamenn Vals hafa samþykkt tvö tilboð í knattspyrnumanninn Gylfa Þór Sigurðsson.

Það er Vísir.is sem greinir frá þessu en Gylfi, sem er 34 ára gamall, hefur verið orðaður við brottför frá félaginu undanfarna daga.

Tilboðin sem umræðir koma frá Íslandsmeisturum Breiðabliks annars vegar og Víkingi úr Reykjavík hins vegar en Gylfi hefur verið sterklega orðaður við bæði félögin undanfarnar vikur.

Undir Gylfa Þór komið

Gylfi gekk til liðs við Valsmenn fyrir síðasta keppnistímabil og skoraði ellefu mörk í 19 leikjum með liðinu í Bestu deildinni.

Hann skrifaði undir tveggja ára samning á Hlíðarenda en nú er ljóst að hann mun ekki leika með liðinu á komandi keppnistímabili í Bestu deildinni.

Það er undir leikmanninum sjálfum komið hvar hann vill spila á komandi keppnistímabili en eins og áður sagði er Breiðablik ríkjandi Íslandsmeistari og Víkingar höfnuðu í öðru sæti deildarinnar á síðustu leiktíð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert