Knattspyrnumaðurinn Albert Guðmundsson fór meiddur af velli í tapi Fiorentina gegn Como á heimavelli í 25. umferð ítölsku A-deildarinnar um síðustu helgi.
Albert, sem er 27 ára gamall, kom inn á sem varamaður á 55. mínútu en fór meiddur af velli 19 mínútum síðar vegna bakmeiðsla.
Football Italia greinir frá því að Albert verði frá næstu vikurnar og hann gæti því misst af komandi landsliðsverkefni þar sem Ísland mætir Kósovó í umspili Þjóðadeildarinnar um sæti í B-deildinni.
Fyrri leikur liðanna fer fram í Pristina í Kósovó, 20. mars og síðari leikurinn fer fram í Murcia á Spáni, 23. mars, en leikurinn á Spáni er heimaleikur Íslands.
Albert lék síðast með landsliðinu í mars á síðasta ári þegar Ísland tapaði fyrir Úkraínu í úrslitum umspilsins um sæti í lokakeppni EM 2024 í Wroclaw í Póllandi.