„Ég er dýrasti leikmaður í sögu félagsins“

Danijel Dejan Djuric.
Danijel Dejan Djuric. Ljósmynd/Víkingur

„Tilfinningarnar eru mjög blendnar,“ sagði Danijel Dejan Djuric í samtali við Morgunblaðið en hann skrifaði á mánudaginn undir þriggja ára samning við króatíska knattspyrnufélagið Istra.

Danijel, sem er 22 ára gamall, er uppalinn hjá Breiðabliki en hann gekk til liðs við Víking úr Reykjavík frá Midtjylland í Danmörku um mitt sumar árið 2022.

Sóknarmaðurinn varð bikarmeistari með Víkingum sama ár og Íslands- og bikarmeistari með Víkingum tímabilið 2023 en alls skoraði hann 24 mörk í 65 leikjum með Víkingum í Bestu deildinni.

Hann verður ekki með liðinu í síðari leiknum gegn Panathinaikos í umspili Sambandsdeildarinnar sem fram fer í Grikklandi á morgun en fyrri leik liðanna í Helsinki lauk með 2:1-sigri Víkinga og Víkingsliðið er því í dauðafæri að komast áfram í 16-liða úrslit Sambandsdeildarinnar.

Vissi af áhuga Istra

Istra lagði fram tilboð í Danijel á lokadegi félagaskiptagluggans í Króatíu og er hann dýrasti leikmaður í sögu félagsins.

„Ég vissi af áhuga þeirra en ég ýtti því öllu til hliðar því ég var mjög einbeittur á það að standa mig vel með Víkingunum í þeim verkefnum sem voru fram undan hjá okkur. Ég fæ svo bara fréttir af því að þeir hafi lagt fram tilboð í mig, á lokadegi gluggans, sem Víkingarnir samþykktu. Eftir að hafa rætt við forráðamenn Istra þá var ég sannfærður um að þetta væri rétta skrefið fyrir mig á þessum tímapunkti.

Ég er dýrasti leikmaður í sögu félagsins og það gaf mér aukið sjálfstraust. Það fylgir því að sjálfsögðu pressa en ég er þannig leikmaður að ég elska pressuna og spila best undir pressu. Maður verður með aðeins fleiri augu á sér út af verðmiðanum og það hentar mér vel. Þeir lögðu mikla áherslu á það að fá mig og mér leist bæði vel á þjálfarann og verkefnið sem er í gangi innan klúbbsins. Þetta er félag sem hentar mér vel.“

Viðtalið má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert