Rui Vitória, knattspyrnustjóri Panathinaikos, hélt spilunum þétt að sér þegar hann var spurður hver myndi leika við hlið íslenska landsliðsmiðvarðarins Sverris Inga Ingasonar í síðari leik liðsins gegn Víkingi úr Reykjavík í umspili um sæti í 16-liða úrslitum Sambandsdeildarinnar í Aþenu annað kvöld.
Bandaríski miðvörðurinn Erik Palmer-Brown meiddist í fyrri leik liðanna í Helsinki síðastliðinn fimmtudag. Þá kom 19 ára Albani, Elton Fikaj, inn á í aðeins öðrum leik sínum fyrir Panathinaikos. Króatinn Tin Jedvaj og Hörður Björgvin Magnússon eru meiddir og Panathinaikos því að glíma við miðvarðakrísu í augnablikinu.
Hollenski miðvörðurinn Bart Schenkeveld er heill heilsu en er ekki hluti af leikmannahópi Panathinaikos í Sambandsdeildinni og er því ekki gjaldgengur. Brasilíumaðurinn Willian Arao, sem er varnartengiliður en getur leyst stöðu miðvarðar, er hins vegar byrjaður að æfa á ný eftir meiðsli. Sá á einn A-landsleik fyrir Brasilíu.
„Það er rétt að Arao er byrjaður að æfa aftur. En hann er búinn að vera lengi frá og missa af mörgum æfingum. Þannig að við munum sjá hvort hann og fleiri sem eru að snúa aftur geta tekið þátt.
Ég er svona 95 prósent viss um hver verður við hliðina á Ingasyni en ég er ekki að fara að gefa það upp hérna. Ég læt þann sem byrjar vita og svo fáið þið að vita það á morgun,“ sagði Vitória á fréttamannafundi á ólympíuleikvanginum í Aþenu í dag.