Íslensku fréttamennirnir skildu ekki neitt

Starfsmaður Panathinaikos reynir að greiða úr tæknilegum örðugleikum á fréttamannafundinum …
Starfsmaður Panathinaikos reynir að greiða úr tæknilegum örðugleikum á fréttamannafundinum í dag. mbl.is/Gunnar Egill

Fréttamannafundur karlaliðs Panathinaikos í fótbolta á ólympíuleikvanginum í Aþenu í dag fyrir leik liðsins gegn Víkingi úr Reykjavík í Sambandsdeildinni annað kvöld gekk ekki áfallalaust fyrir sig.

Fyrsta vandamálið sneri að tungumálum þar sem knattspyrnustjóri Panathinaikos, Rui Vitória, er portúgalskur og talar ekki grísku. Brasilíumaðurinn Tete sat einnig fyrir svörum en hann talar líkt og Vitória ekki grísku og tjáði sig einungis á portúgölsku á fundinum.

Því voru túlkar viðstaddir og afhentu starfsmenn Panathinaikos viðstöddum fréttamönnum tæki með heyrnatólum þar sem hljóðrás með þýðingu átti að berast nánast samtímis í þau.

Einungis gríska og portúgalska

Ofanrituðum skildist að það yrði á ensku en fyrst um sinn heyrðist einungis gríska í heyrnatólunum. Var það raunin allan tímann sem Tete tjáði sig.

Þegar Vitória tók til máls var það sama uppi á teningnum: hann talaði á portúgölsku og það eina sem barst í heyrnatólin var gríska. Stuttu síðar fór hins vegar loks að hljóma enska í heyrnatólunum.

Þá tóku viðstaddir fréttamenn frá mbl.is og Fótbolta.net gleði sína á ný enda ekki mjög sleipir í hvorki grísku né portúgölsku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert