Fotis Ioannidis, fyrirliði Panathinaikos, var ekki á eitt sáttur við sína menn eftir 2:1-tapið fyrir Víkingi úr Reykjavík í fyrri leik liðanna í umspili um sæti í 16-liða úrslitum í Sambandsdeild karla í fótbolta í Helsinki í síðustu viku.
Ioannidis kom inn á sem varamaður og skoraði mark Panathinaikos úr vítaspyrnu undir lok leiks. Eftir leikinn ræddi hann við gríska fréttamenn og skóf ekkert utan af hlutunum.
„Mér finnst sem frammistaða okkar hafi verið óásættanleg og úrslitin eru óviðunandi. Við þurftum aftur að fá vítaspyrnu til þess að skora. Við þurfum að finna út hvað er að og bæta það.
Þetta tengist því hvernig við sköpum færi. Hvernig við nálgumst leiki er óásættanlegt. Aftur eru viðvörunarbjöllur að hringja. Öll lið geta valdið okkur vandræðum,“ hefur gríski miðillinn Sportday eftir Ioannidis.
Tapið fyrir Víkingi var það þriðja í röð hjá Panathinaikos í öllum keppnum en liðið komst aftur á beinu brautina um síðustu helgi þegar Sverrir Ingi Ingason skoraði í 2:1-sigri á Volos í grísku úrvalsdeildinni.