Á bilinu 80 til 100 gallharðir stuðningsmenn Víkings úr Reykjavík mæta til Aþenu í dag eða á morgun til þess að styðja við karlaliðið þegar það mætir Panathinaikos í síðari leik liðanna í umspili um sæti í 16-liða úrslitum Sambandsdeildarinnar í fótbolta.
Víkingur er með eins marks forystu fyrir síðari leikinn eftir að hafa unnið þann fyrri í Helsinki í Finnlandi, 2:1, í skráðum heimaleik Víkinga.
Síðari leikurinn fer fram annað kvöld klukkan 20 á Ólympíuleikvanginum í Aþenu sem tekur um 70.000 áhorfendur.
Ljóst er að hann verður fjarri því að vera fullur þar sem von er á í mesta lagi 15.000 stuðningsmönnum Panathinaikos samkvæmt Herði Ágústssyni fjölmiðlafulltrúa Víkings.