„Erfitt fyrir þá að kyngja því“

Matthías Vilhjálmsson einbeittur á æfingu á ólympíuleikvanginum í Aþenu í …
Matthías Vilhjálmsson einbeittur á æfingu á ólympíuleikvanginum í Aþenu í gær. Ljósmynd/Víkingur

„Ég lít svo á að við höfum eiginlega engu að tapa,“ sagði Matthías Vilhjálmsson, leikmaður Víkings, í samtali við mbl.is fyrir síðari leik liðsins gegn Panathinaikos í Sambandsdeildinni í fótbolta í Aþenu í kvöld.

Fyrri leiknum lauk með fræknum sigri Víkings, 2:1, í Helsinki í Finnlandi fyrir viku síðan.

„ Við ætlum okkur að ná í úrslit, við ætlum okkur að vera sókndjarfir. Við höfum sýnt það margoft að við eigum heima í þessari keppni og höfum náð frábærum úrslitum. Við sýndum það í fyrri leiknum að við hefðum getað unnið stærra að mér fannst.

Það var smá súrt að fá vítaspyrnumarkið á okkur en við ætlum fyrst og fremst að fara í þetta til þess að sækja sigur eða úrslit og koma okkur áfram fyrst við erum komnir svona langt. Við höfum fulla trú á því. Að sjálfsögðu verður þetta mjög erfitt.

Panathinaikos er sigurstranglegri aðilinn, annað væri bara skandall fyrir þá myndi ég halda. Við ætlum að taka þessu fjandsamlaga andrúmslofti opnum örmum og njóta þess. Að láta púa á þig og allt þetta.

Við þurfum að vera undirbúnir fyrir það og njóta þess að vera vondi karlinn. Ég held að það henti okkur Íslendingum vel. Íslenska liðið hefur sýnt það oft fyrir nokkrum árum. Það er hægt að ná frábærum úrslitum með góðri liðsheild og frammistöðu,“ sagði Matthías.

Segir ýmislegt um afrek okkar

Víkingar búast við Grikkjunum reiðum og sárum í leiknum í kvöld eftir tapið í síðustu viku.

„Við búumst klárlega við því. Lið með þessa sögu og af þessari stærðargráðu, það er erfitt fyrir þá að kyngja því að tapa fyrir litlu liði frá Íslandi. Það segir líka ýmislegt um afrek okkar að hafa náð svona góðum úrslitum.

Núna langar okkur bara í meira, að komast enn þá lengra og við ætlum að láta slag standa. Ég held að það sé eina vitið í þessu. Það er ekkert bara að vera að hugsa um varnarleik og eitthvað svoleiðis. Við þurfum að geta haldið í boltann og sótt líka. Ég held að það sé lykill,“ sagði reynsluboltinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert