Hjörtu Víkinga kramin undir lokin í Aþenu

Víkingur úr Reykjavík mátti sætta sig við 2:0 tap fyrir Panathinaikos og samanlagt 3:2-tap þegar liðin áttust við í síðari leik liðanna í umspili um sæti í 16-liða úrslitum Sambandsdeildar karla í fótbolta á Ólympíuleikvanginum í Aþenu í kvöld.

Víkingur vann fyrri leikinn í Helsinki 2:1 og hefur lokið keppni eftir frábæra og sögulega framgöngu í Evrópukeppni á tímabilinu. Sverrir Ingi Ingason lék allan leikinn fyrir Panathinaikos.

Oliver Ekroth með boltann í kvöld.
Oliver Ekroth með boltann í kvöld. Ljósmynd/Víkingur

Töluverður skrekkur var í Víkingum í byrjun leiks og gekk þeim erfiðlega að halda í boltann á meðan Panathinaikos neyddi liðið mjög aftarlega á völlinn og hélt boltanum vel, án þess þó að skapa sér hættuleg færi.

Eftir að Víkingar komust í gegnum fyrsta stundarfjórðunginn fóru þeir að vinna sig betur og betur inn í leikinn.

Á 21. mínútu missti Panathinaikos boltann í eigin vítateig, Valdimar Þór Ingimundarson renndi boltanum til hliðar á Ara Sigurpálsson sem komst ekki í boltann á undan Giannis Kotsiras.

Ari Sigurpálsson
Ari Sigurpálsson Ljósmynd/Víkingur

Víkingur fékk bestu færi fyrri hálfleiks

Mínútu síðar fékk Víkingur tvö bestu færi fyrri hálfleiks. Helgi Guðjónsson átti frábæra sendingu inn fyrir vörn Panathinaikos á Ara sem fór framhjá Bartlomiej Dragowski í marki Panathinaikos vinstra megin í vítateignum, tók skotið í litlu jafnvægi og Nemanja Maksimovic komst fyrir það rétt fyrir framan marklínuna.

Maksimovic var hins vegar ekkert að drífa sig að losa boltann, Valdimar Þór setti hann undir mikla pressu í eigin markteig, Maksimovic hreinsaði í Daníel og þaðan fór boltinn rétt framhjá samskeytunum nær.

Eftir um hálftíma leik fékk fyrirliðinn Fotis Ioannidis gott færi hjá Panathinaikos en lét það þó vera að skjóta við markteiginn, setti boltann þess í stað til hliðar á lofti, Sveinn Gísli Þorkelsson hreinsaði frá, beint á Azzeddine Ounahi sem tók skot á lofti sem fór hátt yfir markið.

Tarik Ibrahimagic
Tarik Ibrahimagic Ljósmynd/Víkingur

Á 40. mínútu átti Helgi aftur glæsilega sendingu inn fyrir vörn Panathinaikos, Valdimar Þór var mættur í frábært hlaup vinstra megin í vítateignum, náði góðri fyrstu snertingu en var líkt og Ari fyrr í leiknum ekki í nógu góðu jafnvægi þegar skotið kom og hafnaði það í hliðarnetinu á nærstönginni.

Skömmu fyrir leikhlé fékk Panathinaikos svo sitt besta færi í fyrri hálfleiknum þegar boltinn barst til Maksimovic í vítateignum eftir skot Tete í varnarmann í kjölfar hornspyrnu heimamanna en skot Maksimovic fór framhjá markinu.

Staðan var því markalaus eftir frábæran fyrri hálfleik Víkinga og staðan þá ennþá samanlagt 2:1 þeim í vil.

Davíð Örn Atlason
Davíð Örn Atlason Ljósmynd/Víkingur

Mörkin komu í síðari hálfleik

 Í síðari hálfleik vörðust Víkingar áfram vel. Ioannidis og varamaðurinn Karol Swiderski reyndu skot rétt fyrir utan og rétt innan vítateigs en bæði fóru beint á Ingvar Jónsson í marki Víkings sem var vandanum vaxinn.

Þess á milli átti átti Brasilíumaðurinn Tete tilraun beint úr aukaspyrnu eftir tæplega klukkutíma leik sem fór rétt framhjá varnarveggnum og markinu.

Ingvar Jónsson
Ingvar Jónsson Ljósmynd/Víkingur

Á 70. mínútu náðu heimamenn í Panathinaikos forystunni. Eftir þunga sókn barst boltinn á vinstri bakvörðinn Filip Mladenovic vinstra megin í vítateignum. Hann náði frábæru hægri fótar skoti sem hafnaði uppi í samskeytunum fjær, óverjandi fyrir Ingvar í markinu.

Staðan þá orðin jöfn samanlagt, 2:2.

Panathinaikos var áfram sterkari aðilinn en ógnaði ekki mikið að ráði. Víkingur náði loks sínu fyrsta markskoti í síðari hálfleik í uppbótartíma þegar Sveinn Gísli átti lausan skalla eftir hornspyrnu Karls Friðleifs Gunnarssonar, sem Dragowski varði.

Sölvi Geir Ottesen
Sölvi Geir Ottesen Ljósmynd/Víkingur

Á fjórðu mínútu uppbótartíma kom hins vegar sigurmark Panathinaikos. Filip Djuricic fékk þá boltann vinstra megin við vítateig Víkinga, skaut að marki en boltinn fór af varnarmanni og þaðan í Ingvar sem varði með fótunum. Illu heilli barst boltinn til Tete sem kom boltanum í netið og staðan orðin 2:0 og 3:2 samanlagt.

Fyrirliðinn Nikolaj Hansen reyndi hjólhestaspyrnu í vítateignum í blálokin en hitti boltann ekki nægilega vel og skotið fór yfir markið. Þar við sat og svekkjandi tap niðurstaðan.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Panathinaikos 2:0 Víkingur R. opna loka
90. mín. Víkingur R. fær hornspyrnu Valdimar smá klaufi og gefur óþarfa hornspyrnu. 40 sekúndur eftir af venjulegum leiktíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert