„Það er bara geggjað. Þetta eru forréttindi fyrir mig og alla sem koma að Víkingi, ungir sem aldnir,“ sagði Matthías Vilhjálmsson, aldursforseti Víkings úr Reykjavík, um Evrópuævintýrið sem liðið tekur þátt í í Sambandsdeildinni í fótbolta.
Víkingur vann gríska stórliðið Panathinaikos 2:1 í fyrri leik liðanna í umspili um sæti í 16-liða úrslitum keppninnar í Helsinki í Finnlandi fyrir viku síðan og mætast liðin aftur á ólympíuleikvanginum í Aþenu klukkan 20 í kvöld.
„Þetta er geðveikt gaman og mig óraði ekki fyrir því þegar ég kom heim frá Noregi að það væri svona stutt í að við gætum náð svona langt.
Þannig að það er mjög gleðilegt og sýnir hversu miklum framförum íslenski fótboltinn hefur tekið. Það er geggjað,“ sagði Matthías, sem er 38 ára gamall, í samtali við mbl.is á leikvanginum í gær.
Hann skoraði síðara markið í sigrinum í Helsinki síðastliðið fimmtudagskvöld og var vitanlega kátur með að skora í þetta mikilvægum leik.
„Það var mjög gaman. Aðeins leiðinlegt að bíða eftir VAR en svona er þetta. Það var ansi ljúft þegar hann dæmdi mark. Ég á að geta skilað mörkum sem gamall sóknarmaður og sóknarsinnaður miðjumaður þannig að það var ljúft,“ sagði Matthías einnig.